Friday 19 January 2007

Íbúð til leigu í París



Staður og tími
Heimilisfang: 75003 Paris (3. hverfi)
Leigutímabil: Hvenær sem er árið 2014
Lágmarkstími að sumri er ein vika.

Á slóðinni hér til hægri View my complete profile er að finna allar nánari upplýsingar. Næstneðst er linkurinn Lausar vikur.

Um íbúðina
Íbúðin er tæplega 50 fermetrar að stærð, björt og rúmgóð. Gengið er inn í gang sem opnast að setustofu, en þar er annars vegar borðstofa og vinnupláss, hins vegar stofukrókur með sófa, sjónvarpi og hljómflutningstækjum. Sófanum má með einu handtaki breyta í tvíbreitt rúm. Gegnt inngangi er fataherbergi þar sem rúmast vel allar yfirhafnir og skótau ásamt ferðatöskum. Til hægri við inngang er lítið svefnherbergi með hjónarúmi, fataskáp og kommóðum. Þrátt fyrir smæðina má koma þar fyrir vindsæng, sem er til staðar.
Eldhúsið er stórt á franskan mælikvarða og sömuleiðis baðherbergið þar sem er baðkar og sturta.
Íbúðin er á 7. og efstu hæð í gömlu og virðulegu húsi. Það stendur efst í hæðardragi og því sér vel yfir alla borg. Úr gluggum setustofu sem snúa í norður mæta augum þök og strompar í fullkominni franskri rómantík. Úr suðurgluggum eldhúss og baðherbergis blasa við frægustu kennileiti Parísar: Notre Dame, Phanteon og Pompidou - Eiffelturninn og jafnvel Sigurboginn ef höfði er otað örlítið út.
Fyrir þá sem þekkja Parísarhús: Jú, það er lyfta. Að vísu ein sú minnsta í heimi, aðeins fyrir tvo granna í einu, - og bara upp á 6. hæð. En hún hífir vel.
Íbúðin er fullbúin húsgögnum, áhöldum og tækjum. Í eldhúsi er þvottavél, uppþvottavél og örbylgjuofn. Í stofu er flatskjár þar sem sjást ótal sjónvarpsstöðvar franskar og alþjóðlegar - og DVD-heimabíó fyrir tónlistarflutning eða kvikmyndir. Engin heimilistölva er á staðnum en hraðvirk ADSL-tenging fyrir fartölvur, þráðlaus jafnt sem þrædd.
Nóg er af sængum, rúmfötum, handklæðum og öðru nauðsynlegu taui til heimilishalds.
Allt er innifalið í leiguverði, þ.e. rafmagn, hiti, sjónvarp, sími innanlands og nettenging.

Um staðsetningu
Rue Meslay er stutt og friðsæl gata sem gengur út frá Lýðveldistorginu, Place de la Republique. Hún tilheyrir 3. hverfi , einu því minnsta í París en þar er m.a. hið þekkta Picasso-safn. Frá Meslay liggja leiðir til allra átta: Að Pompidousafni er 10-15 mínútna gangur í suður. Verslunarmiðstöðin Les Halles er þar rétt hjá. Um 20–30 mínútna gangur er að Louvresafni. Örlitlu lengri göngutúr er að Notre Dame (30-40 mínútur) en leiðin liggur þá framhjá ráðhúsinu, Hotel de Ville. Bætið við 10-15 mínútum og er þá komið að Phanteon í 5. hverfi, þar sem eru líka gamli Sorbonne-háskóli og Lúxembourgargarðurinn, auk miðaldasafnsins Cluny. Frá Meslay í austri er Bastillutorgið í 15-20 mínútna göngufæri. Í vesturátt, 25-35 mínútna gangur, er Óperan og verslunarhallirnar Lafayette og Printemps. Lengst er að Sacré-Coeur í norðri; þó varla meira en klukkustundar rölt, og þar við hæðarrætur er Moulin rouge. En þeir sem ekki nenna að ganga nema 3 mínútur fara bara niður á Republique eða Strasbourg - St-Denis og hafa þar samtals sex Metró-línur sem tengjast allri borg; þar með auðvitað ofantöldum stöðum ásamt öllum hinum.

Labels:


Útsýni til suðurs í átt að Pantheon og Notre Dame